Staðan í skautamálum á Íslandi

Það að það taki áratugi að yfirbyggja skautasvell á Íslandi svo hægt sé að iðka þar skautaíþróttir og íshokkí er með öllu óásættanlagt fyrir íslenska íþróttaiðkendur.
 
Að sama skapi má líkja því við að ekki væri hægt að iðka knattspyrnu að vetri til þar sem allir fótboltavellir lægju undir ís og snjó og ekki væri hægt að byggja upp íþróttagreinina sem skyldi vegna aðstöðuleysis.
 
Í borg á stærð við Reykjavík ættu að vera amk 5 skautahallir ef við lítum til íbúafjölda og þá eru nágranna sveitarfélögin stóru; Kópavogur, Hafnarfjörður og Garðabær ekki tekin með. Einu sinni var ekkert bæjarfélag án sundlaugar en nú til dags er yfirbyggt fótboltahús blátt áfram talin nauðsyn í sveitarfélögum með íbúafjölda niður í 2000 manns.
 
Hagkvæm fjölnota íþróttahús sem hýst geta fleiri en eina íþróttagrein auk þátttöku almennings í iðkun á frístundaíþróttum sem og hugsanleg tónleika eða ráðstefnuaðstaða væri miklu arðvænlegri kostur heldur en hús undir eina íþróttagrein jafnvel þótt bæjarfélaginu tækist að beina öllum börnum sveitarfélagsins í þessa einu grein er ekki að sjá að slíkur húsakostur beri sig.
 
Iðkaðar eru tvær ísíþróttagreinar að staðaldri á Íslandi í fjórum félögum, listskautar og íshokkí, að auki hefur eitt félag takmarkaðar æfingar í krullu en æfingatími er af svo skornum skammti í íshöllunum að sú grein æfir seint að kvöldi og gengur því illa að fá inn nýliðun í greinina.
 
Skautasamband Íslands hefur hug á að skautarar á Íslandi geti iðkað allar greinarnar sem tilheyra sambandinu sem eru auk listskauta, skautahlaup og samhæfður skautadans. Nú þegar er félag sem hefur iðkendur í samhæfðum skautadansi er hefur Því miður ekki enn getað fengið aðgang að ístímum fyrir þá 80 iðkendur sem skráðir voru í félagið við stofnun þess. Ísíþróttir er ekki hægt að stunda án íss og ís er ekki hægt að fá sökum plássleysis í höllunum. Þannig er vandamálið eins og ormur sem bítur í sinn eigin enda og lausn ekki í sjónmáli í bráð. Á meðan bíða íþróttaiðkendur eftir úrlausn á aðstöðumálum ísíþrótta sem vafalaust myndi leiða til fjölgunar íþróttafólks, hærra afreksstigs sem og aukins áhuga almennings á ástundun á frístundaiðkun.
 
Það er ljóst að á landi eins og Íslandi er forgangsröðun um aðstöðumál íþróttagreina afar misskipt og núverandi ástand látið meta þörfina þegar staðan í dag gefur ekki rétta mynd af því hver staðan gæti verið ef aðstaðan væri í lagi. Íþróttayfirvöld á Íslandi taka á ári hverju á móti sendinefndum erlendis frá sem koma til að kynna sér frábæran árangur íslendinga í skipulagðri íþróttaiðkun barna og unglinga og þann stóra hlut sem sá árangur hefur í forvörnum og almennri heilsu barna og ungmenna. Það sem liggur á bak við þessa tölfræði eru samt sem áður frekar fáar íþróttagreinar sem fá til sín mest allt það fjármagn sem til fellur á kostnað jaðaríþrótta sem þurfa öðruvísi uppbyggingu.
 
Inni fótboltahús kostar 1 og hálfan miljarð á meðan að stækkun núverandi skautahalla, t.d. í Laugardal og á Akureyri myndi kosta um 600-700 milljónir og splunkuný höll myndi hlaupa á svipaðri upphæð og fótboltahús en getur hýst töluvert fleiri greinar.
 
Auk listskauta og íshokkís er á ís hægt að stunda skautahlaup, samhæfðan skautadans og krullu.