Grafalvarleg staða aðstöðumála ísíþrótta

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 10.06.2023

Á liðnum árum hefur verið lyft grettistaki í aðstöðumálum ýmissa íþróttagreina, til dæmis fótbolta og fimleika. Hús fyrir þessar greinar hafa sprottið upp um allar jarðir og skapast hefur fyrsta flokks aðstaða til iðkunar. Varla er til sveitarfélag sem ekki hefur glæsilega aðstöðu fyrir að minnsta kosti aðra greinina og hefur þetta valdið sprengingu í iðkendatölum þessara greina sem hefur svo haldist í hendur við glæsilegan árangur íþróttafólks á alþjóðagrundvelli og hækkandi afreksstig.

Nýverið hefur verið barist fyrir Þjóðarhöll innanhússíþrótta sem m.a. á að koma til móts við alþjóðakröfur í mótahaldi og hefur áhrif á möguleika íslensks íþróttafólks að keppa fyrir land sitt á heimavelli. Þetta hefur verið lengi í pípunum og gott að loks sjái til lands enda Laugardalshöll barn síns tíma og samræmist ekki nútíma kröfum alþjóðasambanda. Það sem vill gleymast að ísíþróttir teljast til innanhússíþrótta og hafa þær mætt afgangi þegar kemur að uppbyggingu aðstöðu en síðasta vélfrysta svellið var vígt árið 2003 í Egilshöll í Grafarvogi með glæsilegu einkaframtaki. Áður höfðu verið reist hús yfir vélfryst útisvell í Laugardalnum í Reykjavík og á Akureyri í byrjun 10. áratugarins.

Á höfuðborgarsvæðinu eru sem sagt tvær skautahallir fyrir þá rúmlega 230 þúsund íbúa sem þar búa eða 63% heildar íbúafjölda landsins skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Báðar eru í Reykjavík og er barist um æfingatíma. Skautafélög eiga í stöðugum vandræðum með uppbyggingu íþróttagreina sinna hvort sem um frístundaiðkun er að ræða eða starf á afrekssviði. Eins og gefur að skilja eru þær greinar sem stundaðar eru á ís háðar aðstöðu sinni þ.e. ef enginn er ísinn þá er heldur ekki hægt að stunda viðkomandi íþróttagrein. Aðgengi að ís er því ekki kostur heldur nauðsyn. Ísíþróttir þarf að iðka „á ís“ og er ekki hægt að „flytja út“ á sumrin og spara þannig kostnað vegna aðstöðuleigu.

Ísíþróttafélög í Reykjavík eru fjögur; Skautafélag Reykjavíkur, Skautadeild Aspar, Ungmennafélagið Fjölnir og Skautafélagið Jökull. Þessi félög halda úti æfingum fyrir íþróttafólk, ófatlað sem fatlað, í fjórum greinum. Skautafélag Akureyrar er svo starfandi þar í bæ með fjórar greinar.

Á árunum rétt eftir aldamótin síðustu átti sér stað mikið uppbyggingarstarf í iðkun listskauta og samhæfðs skautadans á Íslandi og með harðfylgi stjórnenda skautafélaga tókst þeim að ná aðgengi að skautahöllunum til æfinga úr tæpum átta mánuðum í næstum tíu mánuði. Hafði slíkt í för með sér mikla framþróun í starfi ísíþróttafélaganna sem og þess íþróttafólks sem æfði þar. Brottfall minnkaði og afreksstig hækkaði. Lið í samhæfðum skautadansi fór á heimsmeistaramót tvö ár í röð og uppbygging afreksfólks hefur hækkað með hverju árinu þannig að loksins sjáum við íslenska keppendur á stærstu mótum greinarinnar. Hefði þessi árangur ekki verið mögulegur nema til hefði komið aukinn möguleiki til æfinga og bætt aðgengi.

Tímaúthlutunarreglur miðast við að reglubundin styrkt íþróttaiðkun í íþróttahúsum sé frá miðjum ágúst til maí loka. Það er þó ljóst að til að skautafélögin geti haldið iðkendum sínum og afreksfólki á því stigi gengur ekki að taka hlé í rúma tvo mánuði að sumri. Skautafélögin hafa því brugðið á það ráð reyna að lengja æfingatímabil iðkenda sinna með því að leigja hallirnar beint af rekstraraðilum með ærnum kostnaði árlega vegna þessa.

Annar þyrnir í síðu ísgreinanna er að þess er krafist að hallirnar séu opnar almenningi á besta tíma um helgar því þær standa undir þeirri kröfu að reksturinn skili hagnaði, eða að minnsta kosti með eins litlu tapi og mögulegt er. Til þess þarf að fórna besta tímanum í höllunum. Stór hluti iðkenda mætir einu sinni til tvisvar í viku fyrir klukkan 7 á morgnana og fyrir hádegi um helgar. Getur þetta verið stórt vandamál fyrir iðkendur sem koma lengra að og búa ekki yfir baklandi til að ferja sig í höllina á vinnutíma forráðamanna yfir í næsta eða jafnvel þarnæsta sveitarfélag til iðkunar. Auka svell við hlið núverandi halla myndi leysa slíkt vandamál án mikils kostnaðar því núverandi hallir eru nú þegar útbúnar kælivélum fyrir tvö svell. Frekari uppbygging aðstöðu fyrir ísgreinarnar á höfuðborgarsvæðinu er orðin fyrir löngu tímabær.

Af hverju hefur öll uppbygging fyrir ísíþróttir staðnað? Af hverju hafa ekki verið byggðar fleiri hallir á höfuðborgarsvæðinu? Hallirnar í Laugardalnum og á Akureyri hafa getu til að frysta tvö svell í fullri stærð en samt hefur ekki tekist að fá yfirvöld til að stækka núverandi hallir og þar með að hafa getu til að fullnægja þörfum um æfingatíma, alþjóðlegu mótahaldi og aðgengi almennings. Meira að segja hefur svo verið þrengt að þeim að illmögulegt er að standa að slíkri uppbyggingu þó svo að gert hafi verið ráð fyrir því í byrjun. Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður telja um 90.000 af þeim 230.000 íbúum höfuðborgasvæðisins eða um 40%. Ekkert þessara sveitarfélaga hefur einu sinni útisvell innan bæjarmarka sinna eða áform um uppbyggingu ísíþrótta og láta skautafélögin í Reykjavík um að þjónusta íþróttafólk úr sveitarfélögum sínum eða um 12% iðkenda þeirra.

Það er ljóst að þær ísíþróttir sem iðkaðar eru á landinu; listskautar, samhæfður skautadans, skautahlaup, íshokkí og krulla komast ekki að í þeirri aðstöðu sem er til staðar og stendur þetta ófremdarástand framþróun íþróttagreinanna fyrir þrifum og að færri geta iðkað ísíþróttir en vilja. Það er því kominn tími á að hugað sé í alvöru að stækkun aðstöðu í Reykjavík og á Akureyri og uppbyggingu í hinum stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmennu íþróttagreinarnar hafa fengið mikið fjármagn til uppbygginar aðstöðu s.l. ár á kostnað jaðaríþróttagreina. Nú er komið að ísíþróttunum. Við getum ekki horft upp á þessa stöðnun lengur og upplifað iðkendur gefast upp og leita í aðrar greinar þar sem hlúð hefur verið að aðstöðumálum. Þar sem íþróttafólkið þarf ekki að upplifa sífelld og lamandi vonbrigði vegna sinnuleysis yfirvalda íþróttamála og neyðast til að yfirgefa íþróttina sína með sár í hjörtum.