Hvaleyrarvatn

Oft eru prýðisaðstæður til að skauta á Hvaleyrarvatni í Hafnarfirði þegar það frýs og býður það upp á fjölbreytta hreyfingu og skemmtun.

Er eitt fallegasta vatnið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða réttara sagt eitt fallegasta umhverfið. Við leggjum bílnum við fyrsta bílastæðið þegar við komum frá Kaldárselsvegi en þar fyrir framan er Sandvík. Göngum svo umhverfis vatnið á ágætis stíg og endum aftur á bílastæði. Þeir sem vilja lengja hringinn eða taka annan lítinn með geta gengið hring í Höfðaskógi sem er austan við vatnið.

Hér hefur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar unnið mikið og gott verk eins og sjá má í þeirra skógi, Höfðaskógi. Á góðum tuttugu árum frá því að sorphaugum Hafnarfjarðar var lokað hér í nágrenninu hefur verið byggt upp dásamlegt útivistarsvæði. Skógrækt hefur hinsvegar verið stunduð hér í ein sextíu ár. Þegar við komum suður fyrir vatnið má sjá veglegan skála. Er þetta skáli eldri skáta, St. Georgs skáta í Hafnarfirði og heitir svæðið Skátalundur.

Texti fenginn af vefnum https://gonguleidir.is/listing/hvaleyrarvatn/