Þessi frétt birtist á MBL.is 22.12.2012

Á síðasta fundi borgarráðs voru kynntar niðurstöður starfshópa um uppbyggingu tveggja íþróttamannvirkja í Laugardal, þ.e. tennishúss og viðbyggingu við Skautahöllina.
Starfshópur um tennishús leggur til að byggt verði á lóð TBR, gegnt Glæsibæ, 2.500 fermetra hús með fjórum tennivöllum ásamt 900 fermetra viðbyggingu á tveimur hæðum auk kjallara. Fyrir eru á lóðinni tvö hús með badmintonvöllum. Áætlaður kostnaður við þessar byggingar er 985 milljónir króna.
Einnig leggur starfshópurinn til að byggðir verði fjórir tennisvellir á núverandi grasæfingasvæði Þróttar en félagið mun skila svæðinu til borgarinnar þegar byggðir hafa verið tveir nýir gervigrasvellir í Laugardal.
Þrjú félög í Reykjavík eru með tennisdeildir, Fjölnir, Víkingur og
Þróttur. Nýlega lauk endurgerð á tveimur völlum á svæði Víkings í Fossvogi. Þörfin fyrir aðstöðu hefur vaxið hröðum skrefum og í dag leigir borgin aðstöðu fyrir félögin þrjú í Tennishöllinni í Kópavogi og greiðir fyrir um 16 milljónir króna árlega.
Á sama fundi borgarráðs voru kynntar hugmyndir Íþróttabandalags Reykjavíkur um stækkun Skautahallarinnar í Laugardal. Í greinargerð kemur fram að um nokkurra ára skeið hafi verið unnið að tillögum um endurbætur og nýframkvæmdir við Skautahöllina. Mikil þörf sé á fjölgun æfingatíma á ís enda séu skautaíþróttir stundaðar hjá þremur félögum í Reykjavík og það fjórða sé á leiðinni. Einnig sé kominn tími á ýmiss konar viðhald á mannvirkinu, m.a. á anddyri. Þá liggi fyrir óskir um aukna aðstöðu, svo sem þrek- og danssali og félagsaðstöðu ásamt því að koma fyrir keilusal. Yfirbyggt æfingasvell mætti mögulega nýta á sumrin fyrir viðburði, svo sem tónleika, leiklist, markaði o.þ.h.
„Lagt er til að farið verði í framkvæmdir í samræmi við fyrirliggjandi tillögur. Heildarfermetrafjöldi nýbyggingar er 1.960, þar af 870 fm keilusalur. Gera má ráð fyrir að með endurbótum sem þarf að gera á eldra húsnæði sé heildarkostnaður um 850 milljónir króna (600 milljónir án keilusalar),“ segir í greinargerðinni.