Um þessar mundir stendur yfir hugmyndasöfnun á vegum Reykjavíkurborgar þar sem farið er fram á tillögur almennings, íbúa Reykjavíkur, um hvernig borgin getur bætt aðstöðu almennings í leik og starfi. Allir geta sent inn hugmyndir að verkefnum í öllum hverfum borgarinnar og getum svo við hin kosið um hvaða verkefni við styðjum. Verkefnið hefur heimasíðuna www. betrireykjavik.is og er opin til 27. október n.k.
Ein tillagnanna lýtur að byggingu viðbyggingar við Skautahöllina í Laugardal, mannvirki sem kynnt var í borgarráði Reykjavíkur 22. desember 2021. Íþróttabandalag Reykjavíkur, ÍBR, á og rekur skautahöllina og hafa lengi haft hug á að bæta við aðstöðuna. Núverandi höll var byggð yfir vélfryst svell árið 1998 og markaði sigur á áratuga langri baráttu skautaáhugafólks í Reykjavík fyrir yfirbyggðu vélfrystu svelli.
Lengi stóð til að að byggja stækkun við skautahöllina á svæði milli gerfigrasvallar Þróttar og núverandi hallar en þær fyrirætlanir urðu aldrei að veruleika og var Þrótti gefið vilyrði fyrir svæðinu fyrir allnokkru. Núverandi tillögur að stækkun hallarinnir eru í átt að grasagarðinum en þar er einnig þröngur kostur og er nokkuð ljóst að ekki verður hægt að byggja svell í fullri keppnisstærð fyrir listskauta, skautaat og íshokkí. Það er hins vegar afar mikilvægt þessum íþróttagreinum að viðbót komi við höllina þar sem hægt yrði að færa almenning, byrjendur og frístundaskautun á þetta svell og í ofanálag stórbæta þá aðstöðu sem skauta- og íshokkííþróttafélög fengju fyrir félagsmenn sína í formi aðstöðu til afísæfinga og búningsklefa svo eitthvað sé nefnt. Kælikerfi fyrir vélfrystingu er þegar til staðar í núverandi skautahöll og ber það frystimöguleika fyrir tvö ísyfirborð og yrði því kostnaður vegna verkefnisins einungis áætlaður 600 milljónir.
Skautasamband Íslands hefur veg og vanda að skipulagningu og rekstri skautaíþróttagreinnanna listskauta, samhæfðs skautadans og skautahlaups. Sambandinu og aðildarfélögum þess eru samt sem áður verulegar skorður settar á að geta sinnt úbreiðslu hlutverki sínu sem skyldi þar sem öll aðstaða til iðkun skautaíþrótta er fyrir löngu sprungin og rými til stækkunar félaga með ísíþróttagreinar heft af aðstöðuleysi.
Skautahöllin í Egilshöll hýsir tvö skautaíþróttafélög, Fjölni og Ösp, og skautahöllin í Laugardal hýsir Skautafélag Reykjavíkur. Þessi félög leggja öll stund á listskauta og íshokkí og einhver hafa hug á að bæta við sig skautahlaupi. Fjórða félagið bíður eftir möguleika á að komast inn í ístímakerfi ÍBR en það félag, Jökull, var stofnað um hópíþróttina samhæfðan skautadans og er eina félagið á landinu sem hefur þann hluta skautagreina á stefnuskránni. Öll eru þessi félög í miklum vandræðum með að geta boðið félagsmönnum sínum upp á æfingar á mannsæmandi tímum í fjölbreyttum ísíþróttum.
Það er hér með skorað á íbúa Reykjavíkur að greiða atkvæði með byggingu stækkunar á Skautahöllinni í Laugardal og um leið Reykjavíkurborg sjálfa að bregðast skjótt við og keyra nú í gang þetta verkefni svo það velkist ekki í kerfinu í áratug til viðbótar án nokkurrar úrlausnar fyrir þessar skemmtilegu íþróttagreinar.