Skautaíþróttir á Íslandi

Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ) og Skautasamband Íslands (ÍSS) óska eftir viðræðum um byggingu skautasvells í ykkar sveitarfélagi. ÍHÍ og ÍSS stefna að betri aðstöðu, fjölga iðkendum, auka vægi íþróttarinnar á Íslandi og ná frekari árangri á alþjóðavettvangi á komandi misserum.

Í dag eru fjögur íþróttafélög sem stunda skautaíþróttir. Skautafélag Akureyrar, Skautafélag Reykjavíkur, Fjölnir og Öspin. 

Ágætt aðgengi er að ársreikningum tveggja skautasvella, þ.e Skautahöllin á Akureyri og Skautahöllin í Laugardal. Rekstrartekjur ársins 2020 Skautahallarinnar í Laugardal voru rúmar 67 milljónir og árið þar á undan um 81 milljón, hagnaður var bæði árin. Rekstrartekjur Skautahallarinnar á Akureyri 2020 voru rúmar 57 milljónir og árið 2019 61 milljón, talsverður hagnaður bæði árin. Samkvæmt ársskýrslu ÍBR þá hafði covid tímabilið talsverð neikvæð áhrif, þannig að ÍBR hafði gert ráð fyrir meiri hagnaði. Linkar á ársreikninga má finna neðst í skjali þessu.

Almenningstímar greiða stóran hluta reksturs beggja hallna. Almennings tímarnir eru almennt mjög vel nýttir, fjölmargir leggja leið sína í hallirnar og skauta sér til gamans. Skautadiskó á Akureyri er á hverjum föstudegi, nánast allt árið um kring, og er einn vinsælasti viðburður sem er í boði á Norðurlandi. Þarna spinnast því saman frábærar íþróttir, aðstaða fyrir fatlaða, almenningsskautatímar ásamt skautadiskó, jólaskautar og alþjóðleg mót af bestu gerð. Borgarholtsskóli nýtir svellið í Egilshöll undir sína íþróttastarfsemi og mæta nemendur Borgó á morgnana á ísinn. Þannig nýtist ísinn afskaplega vel, reksturinn er í blóma og fjölmargir nýta mannvirkið frá ungviði að eldri borgurum. 

Við munum fara hér í stuttu máli yfir þær skautaíþróttir sem eru iðkaðar á Íslandi og gætu orðið stór hluti íþróttamannlífs og almennings í ykkar sveitarfélagi.

Íshokkísamband Íslands.

Fjöldi iðkenda í íshokkí sem taka þátt í Íslandsmótum, frá 13 ára aldri eru um 600, að auki eru um 300 iðkendur í yngri aldurshópum og um 300 í fullorðins íshokkí. ÍHÍ er með fimm landslið sem taka þátt í heimsmeistaramótum á vegum alþjóða Íshokkísambandsins (IIHF) og að auki erum við með landslið U20 kvenna sem tekur þátt í smærri mótum innan Evrópu.  Ótrúlega lítill kostnaður felst í því að taka þátt í heimsmeistaramótunum þar sem IIHF greiðir allan kostnað sem til fellur eftir að landslið okkar lendir á flugvelli þess lands sem heldur mótið. 

Landslið karla er í 34. sæti á heimslistanum og landslið kvenna er í 27. sæti. Þessi árangur okkar vekur eftirtekt erlendis með tilliti til fjölda iðkenda og það er augljóst mat okkar að ef við fáum fleiri svell, bætta aðstöðu, aukinn fjölda íþróttafélaga með íshokkí innan sinna vébanda þá getum við náð frekari árangri á heimsvísu. 

ÍHÍ hefur margoft haldið heimsmeistaramót á Íslandi. Draga slík mót að sér mörg hundruð þátttakendur og áhorfendur sem kalla á margvíslega þjónustu hér á landi. Stórt viðfangsefni eru öll þau önnur lið sem vilja ferðast til Íslands og vera með æfingar hér á landi, hvort sem það eru félagslið, áhugalið eða landslið. Skapar þessi áhugi talsverð viðskiptatækifæri enda er ísinn leigður út til þessara aðila ásamt því að liðin þurfa hótel sem og aðra þjónustu. Við vísum frá fjölda liða á hverju ári, enda svellin aðeins þrjú og ístími af skornum skammti.

Ný íshokkídeild í íþróttafélagi innan ykkar sveitarfélags fengi strax aðild að ÍHÍ, enda er það stefna sambandsins að fjölga klúbbum og helst tvöfalda eða jafnvel þrefalda iðkendafjölda frá því sem nú er. Fjölgun iðkenda er grunnforsenda þess að efla þessa íþrótt hér á landi. 

Íshokkísamband Íslands hefur tekið virkan þátt í erlendu starfi og eigum við mjög auðvelt með að nálgast erlenda þjálfara til að taka þátt í okkar starfi. Einnig erum við með mjög góðan aðgang að búnaði fyrir nýtt mannvirki og yrði það gleðiefni fyrir okkur að aðstoða ykkur við að fá sem bestan búnað fyrir ykkar nýja svell. ÍHÍ og IIHF getur aðstoðað við hönnun á umgjörð svellsins.  IIHF er með arkitekta á sínum vegum sem eru með teikningar á autocad formi sem auðvelt er að fá og nýta við hönnun. Einnig eru margvíslegar útfærslur til á skautasvellum og óþarfi að leita langt útfyrir þá þekkingu sem til er og gott aðgengi er að. 

Skautasamband Íslands

Skautasamband Íslands (ÍSS) styður heilshugar uppbyggingu skautahallar í nýju sveitarfélagi. Fjöldi iðkenda í dag í listskautum er um 600 sem skiptist niður á fjögur aðildarfélög, annars vegar í Reykjavík og á Akureyri. Búast má við að nýtt skautafélag hjá ykkur gæti haft allt að 100 iðkendur í listskautum, jafnvel fleiri nái félagið góðum undirbúningi á fyrstu stigum. Við bindum einnig vonir um að iðkendur í skautahlaupi (Speed skating) muni bætast við, en fjöldann þar er erfitt að áætla þar því æfingar hafa ekki náð neinum hæðum sökum algjörs aðstöðuleysis. Skautasambandið hefur í hyggju að sækja sér styrkja til uppbyggingar á skautahlaupi í landinu. Nýtt svell í nýju sveitarfélagi er því kjörið tækifæri til þess að efla þá íþrótt frekar. 

Um leið og nýtt íþróttafélag sem stendur fyrir skauta þjálfun hefur gengið inn í Skautasambandið munu keppendur þar fá þátttökurétt á mótum á vegum sambandsins. Gera má ráð fyrir að það taki allt að einu ári að undirbúa iðkanda á innan félags- og millifélagamótin í listskautum, líklegt er að einhverjir myndu komast fljótlega á ÍSS mót. Þeir iðkendur sem æfa í nýju aðildarfélagi fylgja sömu reglum og aðrir um þátttöku í alþjóðlegum mótum. Gera má ráð fyrir að það taki 2-4 ár að koma iðkendum inn í afrekshópa ÍSS sökum þess að iðulega þarf iðkandi að byrja ungur til að vera líklegur til að ná árangri alþjóðlega en aðgengi hæfileikamótunar ÍSS er aðgengilegt 12 ára og eldri. 

Skautasambandið veit af listskautaþjálfurum sem hafa mikinn áhuga á uppbyggingu nýrra félaga sem hingað til hefur verið erfitt sökum aðstöðuleysis. Með tilkomu nýrrar skautahallar geta viðkomandi aðilar hjálpað til við það verkefni. Til að sinna þjálfun nýrra iðkenda í nýju íþróttafélagi þarf í eðlilegu starfsumhverfi 3-4 þjálfara. 

Krulla / Curling

Krulla er í mjög stuttu máli leikur á milli tveggja liða sem renna steinum frá einum enda til annars og reyna að koma sínum steini fyrir sem næst miðju hrings.  Fjórir leikmenn eru í hvoru liði og leika þeir til skiptis þangað til að allir leikmenn hafa rennt sínum tveimur steinum en hvort lið hefur átta steina.

Saga krullu á íslandi á sér sögu til ársins 1991 þegar Ísland gekk í alþjóða krullusambandið (World Curling Federation) Til að gera langa sögu stutta þá endaði það þannig að þeir krullusteinar sem Íslandi var gefið á sínum tíma af Kanadamönnum enduðu á Akureyri og þar hefur vagga krullu verið síðan, en krulludeild Skautafélags Akureyrar var stofnuð árið 1996.  Í Egilshöll Reykjavík hefur undanfarið verið iðkuð krulla sem vonandi eflist á næstu misserum en skautasvellið í Egilshöll er þétt setið og oft erfitt að fá ístíma fyrir krullu.

Þegar skautahöllin á Akureyri var tekin í notkun árið 2000 var fyrst hægt að spila krullu innandyra en þó með þeim annmörkum sem skautaís er en hann er ekki fullkominn krulluís þar sem ísinn þarf að vera eggsléttur til að íþróttin njóti sín sem best. Það er ekki ómögulegt að spila á skautaís en íþróttin er ekki söm þar sem ísinn er aldrei eins sléttur og hann þarf að vera og svo tekur alltaf drjúgan tíma eða ca. 45 mínútur að undirbúa ísinn fyrir krullu. 

Starfsemin á Akureyri fer þannig fram að á mánudagskvöldum eru leikin nokkur mót eins og bikar og íslandsmót yfir árið en því miður hafa aldrei skapast þær aðstæður að geta verið með barna og unglingastarf sem er lykilatriði í að efla íþróttina. Okkur vantar því betri og fleiri svell.

Þegar best lét voru um 50 manns sem iðkuðu íþróttina á Akureyri en þeim hefur fækkað niður í um 20 manns upp á síðkastið og er það aðallega vegna aðstöðuleysis. Aldur krullara er í dag nokkuð hár sem skapast af því að lítil endurnýjun á sér stað og  barna og unglingastarf fer ekki fram þar sem eini tíminn sem krulludeildin hefur er eftir klukkan sjö mánudagskvöldum. 

Í lok hvers tímabils sem er í lok apríl hefur krulludeild Skautafélagsins haldið alþjóðlegt mót Ice Cup og boðið erlendum keppendum að koma og spila yfir eina helgi og hefur ávallt verið mikil aðsókn á það mót en á síðasta ári komu 15 erlend lið til keppni ásamt 7 innlendum en samtals voru keppendur um 90 talsins. Mjög vinsælt er hjá fyrirtækjum að koma með fólk í svokallaðar hvataferðir og eins hafa skólahópar, vinnufélagar og jafnvel saumaklúbbar leigt svellið.

Ef krullusvell væri fyrir hendi hvar sem það er á landinu er ég sem skrifa þessar línur þess fullviss að krullan myndi ná miklum vinsældum meðal fólks. Ef einhvers staðar væri verið að huga að byggingu skautahallar ætti tvímælalaust að huga að því að hafa til hliðar tvær krullubrautir. Krullan ein og sér væri örugglega tekjuaukandi fyrir skautahöll.  Það eru ekki margar íþróttagreinar sem allir aldurshópar geta tekið þátt og svo er krullan ákaflega skemmtileg og fjölskylduvæn íþrótt. 

Reynsla okkar á Akureyri sýnir að það er vel hægt að hafa góðar tekjur af leigu á krullubrautum ef þær væru alltaf til staðar og hægt að ganga að því vísu að fá tíma. Krullan hentar öllum aldurshópum og hún er einnig góður kostur fyrir börn og unglinga sem þrífast ekki í öðrum íþróttum sem oft á tíðum eru of harðar fyrir suma einstaklinga.  Einn hópur til viðbótar hefur líka möguleika á að stunda íþróttina en það er fólk í hjólastólum. Síðustu ár hefur verið mikil aukning í heiminum að fólk í hjólastólum spili krullu og hefur Alþjóða krullusambandið séð um að halda heims og evrópumót í þeirri grein (wheelchair curling).