Þessi frétt birtist á visir.is þann 04.01.2018

Batteríið Arkitektar ehf, Efla hf og Landslag ehf. hlutu fyrstu verðlaun í framkvæmdasamkeppni um rammaskipulag Vífilsstaðalands í Garðabæ. Svæðið sem rammaskipulagið mun ná til er um 145 hektarar að stærð og mun þar rísa nýtt hverfi, svokallað Vífilsstaðahverfi.
Úrslit í samkeppninni voru tilkynnt þann 21. desember síðastliðinn en alls voru fjórar tillögur sendar inn. Á vef Garðabæjar segir að markmiðið með samkeppninni og áframhaldandi skipulagsvinnu sé að móta raunhæft rammaskipulag um uppbyggingu, sem fljótlega verði hægt að byrja að vinna eftir. Gert er ráð fyrir að deiliskipulagsferli fyrsta áfanga hverfisins geti hafist sem verður íþróttasvæði í Vetrarmýri.
Garðabær festi kaup á um 200 hektara svæði í kringum Vífilsstaðaspítala í apríl á síðasta ári. Í aðalskipulagi Garðabæjar er sett fram stefnumörkun um helstu landnotkunarflokka innan svæðisins, svo sem íbúðabyggð, íþróttasvæði, golfvöll, verslun og þjónustu, en viðfangsefni samkeppninnar var að flétta saman þessa ólíku landnotkun ogsetja fram heildarlausn fyrir svæðið allt.
Allar tilögurnar fjórar gera ráð fyrir byggð sem svarar til eins skólahverfis auk þess sem að gert er ráð fyrir breytingum á golfvelli GKG en í niðurstöðu dómnefndar segir að frá upphafi hafi verið ljóst að gera þyrfti breytingar á golfvellinum, færa einhverjar brautir og æfingasvæði og aðlaga að fyrirhuguðu íþróttasvæði og íbúðabyggð. Tillögurnar allar sýni þó að vel sé hægt að skapa spennandi golfvöll í tengslum við fyrirhugaða byggð að því er segir í mati dómnefndar.